Það var ljúfsárt fyrir kosningastjórann að kveðja hann Aron nú í vikunni er hann hélt til Reykjavíkur áleiðis til Bandaríkjanna – vont að missa góðan mann úr baráttunni þó ekki sé nema í örfáa daga en að sama skapi gleðilegt að horfa á eftir honum í verðugt verkefni. Eins og flestir vita er Aron sonur Ingibjargar Sigríðar Guðmundsdóttur (Ingu Siggu) sem lést úr MND sjúkdómnum fyrir tæpum þremur árum. Hún greindist með sjúkdóminn árið 2013 og Aron segir að hún hafi strax við greiningu tekið þá ákvörðun að lifa lífinu lifandi og láta sjúkdóminn ekki stoppa sig við að njóta lífsins með sínu fólki.

MND félagið mun ávallt fylgja mér

Aron og móðir hans Inga Sigga sem lést úr MND sjúkdómnum fyrir tæpum þremur árum.

„Sem betur fer fyrir okkur fjölskylduna var öflugt félag til staðar í kringum sjúkdóminn, MND félagið á Íslandi. Mamma ákveður að senda póst á formanninn Guðjón Sigurðsson til þess að fá nánari upplýsingar um félagið og það leið ekki á löngu þar til að Guðjón var búinn að svara henni og bjóða henni og pabba með félaginu í ferð til Danmerkur. Þetta sýnir bara hreint og beint hvað félagið og fólkið er þar eru frábærar og hjálpsamar manneskjur. MND félagið hefur frá þessari stundu sýnt okkur fjölskyldunni ótrúlegan stuðning og ég hét sjálfum mér því að sama hvernig framhaldið yrði, þá myndi ég alltaf vera til staðar fyrir félagið rétt eins og það var til staðar fyrir mig,“ segir Aron.

Og hann hefur staðið við þau orð og í dag er Aron varaformaður MND félagsins og fyrrnefnd Bandaríkjaferð hans er á vegum samtakanna.

Ungmenni deila reynslu sinni

MND er frekar sjaldgæfur sjúkdómur og Aron segir að þegar móðir hans greindist hafi ekki verið mörg ungmenni sem höfðu reynslu af því sem hann var að ganga í gegnum og þeim þætti sem laut að því að hann var orðinn umönnunaraðili móður sinnar. „Ekki miskilja mig ég myndi gera allt fyrir mömmu en þetta er ekki hlutverk sem tæplega tvítugur strákur er búinn undir og viðbrigðin voru mikil. Mig hefur langað til að deila þessari reynslu minni til ungmenna í sömu stöðu og nú bauðst mér einstakt tækifæri til þess með ungum krökkum frá Bandaríkjunum sem eru að ganga í gegnum það sem ég gekk í gegnum þegar mamma veiktist. Að sama skapi er það ákveðinn léttir fyrir mig að geta átt samskipti og umgengist aðra á mínu reki sem eru að upplifa það sama,“ segir Aron.

Samtökin sem Aron er að heimsækja í Bandaríkjunum nefnast Hope Loves Company og styðja við krakka sem eiga aðstandendur með MND sjúkdóminn.

Snýr tvíefldur til baka

Aron með Jodi O’Donnell-Ames, stofnanda Hope Loves Company.

„Samtökin halda nokkurs konar sumarbúðir nokkrar helgar á ári í Bandaríkjunum þar sem þessum krökkum gefst tækifæri á að hitta aðra krakka í sömu sporum og fá aðstoð, góð ráð og gleyma stað og stund i smá tíma. Ungir sendifulltúar frá þessum samtökum komu til Íslands seinasta sumar í samstarfi við MND félagið á Íslandi og segja má að þessi tvö samtök hafi bundist vináttuböndum og úr varð ég fór í heimsókn til þeirra og tek örstutt hlé frá kosningabaráttunni en sný tvíefldur til baka eftir helgi.“

-sk

 

 

 

 

 

 

Categories: Viðtöl

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *