Stefnuskrá Í-listans 2018-2022

Ánægðir íbúar – vaxandi bær

Í-listinn vinnur umfram allt að því að hér sé gott að búa. Bætt lífsgæði skila bænum okkar farsælli framtíð. Aukin þjónusta við íbúa og uppbygging í sveitarfélaginu er því grundvallaratriði.

Í-listinn hefur hagsmuni íbúanna og vilji þeirra ávallt að leiðarljósi. Íbúar ættu að upplifa að hver og einn skiptir máli, óháð búsetu og persónulegum aðstæðum. Því sterkari sem hver einstaklingur og hver byggð er í sveitarfélaginu, því sterkara verður sveitarfélagið allt.

Aukið íbúalýðræði, þar sem íbúum gefst kostur á að hafa áhrif á málefni, þar sem íbúarnir geta komið málum á framfæri og þar sem íbúarnir koma að ákvörðunum um einstök mál, það er sú leið sem Í-listinn mun fara til byggja upp styrk, samhygð og traust í öllu sveitarfélaginu.

Börnin í fyrsta sæti

Börnin okkar og aðbúnaður þeirra hlýtur alltaf að vera í fyrsta sæti. Í-listinn vill gera eins vel og hægt er við börn og barnafjölskyldur. Þannig bætum við lífsgæði og styrkjum Ísafjarðarbæ sem búsetuvalkost.

Lögð verður áhersla á að starfsumhverfi nemenda og kennara í leik- og grunnskólum verði ávallt eins gott og kostur er.

Í-listinn mun stytta bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og setur markið á 12 mánaða börn á kjörtímabilinu.

Það er leikur að læra. Tómstundaiðkun er mikilvægur þáttur í mótun og uppvexti barna. Því verður lögð áhersla á að auka enn frekar fjölbreytt tækifæri barna til að leggja stund á uppbyggilegar tómstundir.

Nám barna

 • Við leggjum áherslu á að skólarnir þroski börn til innihaldsríkrar þátttöku samfélaginu.
  Við leggjum áherslu á sköpun, gagnrýna hugsun, samskiptafærni og tæknilæsi.
  Við viljum kanna möguleika lotubundins náms í skólunum okkar og hvort þannig megi styrkja smærri skólana frekar.
 • Tryggjum að börn af erlendum uppruna fái nauðsynlegan stuðning í námi til fullrar þátttöku í samfélaginu.
 • Börn ættu aldrei að þurfa að borga fyrir nauðsynleg gögn eða verkfæri í skólum.
 • Við viljum auka upplýsingagjöf til foreldra í leik- og grunnskóla, ekki síst innflytjenda.

 

Uppbygging skólahúsnæðis

 • Leikskólinn Eyrarskjól verður stækkaður árið 2019, rýmum fjölgað og aðstaða starfsfólks bætt. Stækkun Eyrarskjóls er á fjárfestingaráætlun næsta árs.
 • Í framhaldi af stækkun Eyrarskjóls verður hugað að frekari fjölgun leikskólarýma og þá fyrst horft til stækkunar og endurbóta á Sólborg.
 • Nýtt húsnæði fyrir Dægradvöl á Ísafirði.
 • Þarfagreining og undirbúningur vegna nýs skólahúsnæðis. Sveitarfélagið verði viðbúið að byggja nýtt skólahúsnæði áður en skóinn kreppir að.

 

Íþróttir

Í-listinn hefur lagt meira fé í skipulagt íþróttastarf en dæmi eru um. Við höfum tekið þátt í mikilli uppbyggingu íþróttamannvirkja með m.a. uppbyggingarsamningum við íþróttafélög, en slíkt hefur ekki verið reynt áður.  Áfram verður haldið á þessari braut að styðja við íþróttastarf í samstarfi við HSV, enda er fátt uppbyggilegra fyrir börn og ungmenni og almenna lýðheilsu.

Íþróttamannvirki á dagskrá Í-listans

 • Bygging knattspyrnuhúss á Torfnesi. Undirbúningur framkvæmda stendur yfir og hefjast þær á þessu ári. Við Í-listanum ætlum að róa öllum árum að því að leggja gervigras á keppnisvöllinn á Torfnesi þannig að völlurinn nýtist til fullnustu
 • Framkvæmdir við nýtt húsnæði undir líkamsræktarstöð á Ísafirði
 • Bygging reiðhallar í Engidal, sem þegar hefur verði samið um og er í undirbúningi
 • Framkvæmdir við íþróttamannvirki bæjarins með frekari gerð uppbyggingarsamninga sem teknir voru upp á líðandi kjörtímabili í samstarfi við íþróttafélög
 • Setjum upp æfingatæki við göngustíga og útisvæði
 • Samstarf við nágrannasveitarfélög um uppbyggingu á íþróttamannvirkjum

 

Velferð fyrir alla

Í-listinn hefur að leiðarljósi að allir íbúar sveitarfélagsins njóti jafnra tækifæra og geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu.

Að útrýma hindrunum og styðja við góða andlega heilsu og getu til þátttöku í samfélaginu er hornsteinn velferðarstefnu Í-listans. Í-listinn mun í þessu skyni vinna að bættu aðgengi, vinna gegn alls kyns geðröskunum og styðja við þátttöku nýbúa í samfélaginu.

Húsnæðismál – Í-listinn mun

 • Ljúka byggingu þess fjölbýlishúss sem boðið hefur verið út í Sindragötu 4
 • Vinna strax að byggingu á öðru fjölbýlishúsi við Sindragötu til að mæta íbúafjölgun
 • Skoðað verður hvort eftirgjöf á sköttum og gatnagerðargjöldum geti örvað byggingu íbúðarhúsnæðis
 • Leggja áherslu á að ætíð sé nægt framboð af byggingalóðum í öllum byggðum sveitarfélagsins
 • Leitað verður leiða til að útbúa fjölbýlishús í Ísafjarðarbæ þannig að það henti eldri borgurum, t.d. með lyftum og bættu aðgengi

 

Fjölgun leikskólaplássa

 • Bjóðum börnum frá 12 mánaða aldri leikskólavist
 • Ljúkum stækkun Eyrarskóls árið 2019
 • Hefjum endurbætur og stækkun á Sólborg í framhaldi af Eyrarskjóli.

 

Eldri borgarar

 • Við viljum efla heimaþjónustu og tengja hana betur heimahjúkrun, þannig að eldri borgarar eigi betri kost á heildstæðri þjónustu
 • Við viljum brúa kynslóðabilið og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda á þriðja æviskeiðinu með aðstöðu fyrir eldri borgara
 • Við viljum íþrótta- og tómstundafulltrúa fyrir eldri borgara

 

Fólk með fötlun

 • Við ætlum að bæta aðgengi fatlaðs fólks að stofnunum Ísafjarðarbæjar
 • Við munum hvetja einkaaðila til þess að bæta aðgengi og koma til móts við þá aðila með styrk til verksins
 • Við ætlum að auka möguleika fatlaðs fólk í Ísafjarðarbæ til að nýta sér notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)
 • Við ætlum að efla atvinnumöguleika fatlaðs fólk í samstarfi við atvinnulífið
 • Við viljum koma upp notendaráðum fatlaðs fólks

 

Lýðheilsa

 • Við ætlum að móta lýðheilsustefnu og stuðla að aukinni vellíðan íbúa sveitarfélagsins
 • Markmið okkar er að Ísafjarðarbær verði viðurkennt heilsueflandi samfélag á kjörtímabilinu
 • Við ætlum að efla þjónustu við þá einstaklinga sem standa höllum fæti vegna andlegra veikinda, sérstalega með ungt fólk í huga

 

Þroski og stuðningur

 • Við munum auka aðgengi að sérfræðiþjónustu til að mæta þörfum barna fyrir greiningar og nauðsynleg úrræði, s.s. sálfræðiráðgjöf og talþjálfun
 • Við ætlum að efla markvissa vinnu til að takast á við kvíða barna og ungmenna
 • Við viljum auka fræðslu um forvarnir og geðheilbrigði til barna og ungmenna
 • Tryggjum fullnægjandi húsnæði fyrir dægradvöl

 

Íbúalýðræði

Í-listinn trúir að aukin aðkoma íbúanna að málefnum sveitarfélagsins bæti ákvarðanir og skapi betra samfélag. Þess vegna höfum við eflt íbúalýðræði í sveitarfélaginu og leggjum mikla áherslu á að auka það enn frekar.

Í-listinn mun halda áfram að skerpa á hlutverki og ábyrgð hverfisráða þannig að þau verði öflugri vettvangur fyrir íbúa til að hafa áhrif. Hugmyndir og áherslur hverfisráða verða lagðar til grundvallar við uppbyggingu stíga og útivistarsvæða og í öðrum framkvæmdum sveitarfélagsins.

Við leggjum mikla áherslu á aukið hlutverk ungmenna- og öldungaráða. Við viljum halda áfram að kenna lýðræði og samfélagsþátttöku í skólum og vekja áhuga ungmenna á lýðræðisþátttöku.

Hverfisráðin

 • Skýrari boðleiðir verði milli hverfisráðanna og stjórnsýslunnar
 • Hverfisráðin og málefni þeirra sýnileg á heimasíðu Ísafjarðarbæjar
 • Hverfisráðin geti fylgt eftir erindum sínum og séð hvar þau eru stödd í stjórnkerfinu
 • Hugmyndir og áherslur hverfisráða verða lagðar til grundvallar við uppbyggingu stíga og útivistarsvæða og í öðrum framkvæmdum sveitarfélagsins

 

Íbúasamráð

 • Setjum á fót reglubundin þing bæjarfulltrúa með íbúum í hverju þorpi og hverfi
 • Leitum leiða á borð við „Betri Reykjavík“ sem vettvang íbúa til samráðs
 • Innleiðum hverfisgöngur bæjarfulltrúa og lykilstarfsmanna með íbúum á hverjum stað

 

Menningarmál

Menningarstarfið göfgar okkur; gerir bæinn okkar bæði athyglisverðari og skemmtilegri en ella væri. Í Ísafjarðarbæ er blómlegt menningarlíf sem ber að viðhalda enda hluti af sjálfmynd okkar. Í-listinn vill að fjölmenning njóti sín og sem gerir okkur ríkari sem samfélag.

 • Hornstrandastofa mun rísa í Neðstakaupstað sem eykur verulega tekjur af ferðamönnum
 • Styrkjum söfnin í Ísafjarðarbæ, fjölgum heimsóknum og eflum þau til forystu á landsvísu
 • Stöndum vel að varðveislu hvers konar menningarminja
 • Styðjum enn frekar við menningarhátíðir í Ísafjarðarbæ
 • Hjálpum framtakssömum að fjölga skemmtilegum viðburðum í Ísafjarðarbæ

 

Fjölbreytt atvinnulíf

Tryggja þarf að Ísafjarðarbær sé álitlegur búsetukostur með sterkar grunnstoðir og góða þjónustu. Áfram þarf að þrýsta á stjórnvöld til byggja upp samgöngur og innviði á Vestfjörðum í samræmi við stefnumörkum vestfirskra sveitarfélaga. Ísafjarðarbær þarf að bjóða upp á góða skóla og fjölbreytta valkosti í útivist og íþróttum og styðja þannig við atvinnuuppbyggingu fyrirtækja.

 • Við viljum að Ísafjarðarbær verði miðstöð þekkingar og rannsókna í fiskeldi
 • Bæta aðgengi við móttöku skemmtiferðaskipa þannig að hægt verði að taka á móti gestum í sátt og samlyndi við íbúa og fyrirtæki í bænum
 • Í-listinn leggur áherslu á tengsl menntunar, nýsköpunar og atvinnulífs
 • Í-listinn mun áfram styðja við og þróa Blábankann á Þingeyri og nýsköpunina þar fer fram
 • Ísafjarðarbær verði áfram traustur bakhjarl fyrir Lýðháskólann á Flateyri
 • Höldum áfram með uppbyggingu á Sundabakka
 • Hornstrandastofa mun rísa í Neðstakaupstað sem eykur verulega tekjur af ferðamönnum
 • Við munum beita okkur fyrir áframhaldandi uppbyggingu á því góða starfi sem Háskólasetur Vestfjarða sinnir

 

Í-listinn mun

 • Halda áfram undirbúningi og hefja uppbyggingu á Sundabakka
 • Tryggja að skipulag við Ísafjarðarhöfn og á Suðurtanga skapi kraftmikið atvinnulíf
 • Endurskoða skipulag í Dýrafirði og öðrum byggðarkjörnum þannig hægt sé að mæta þörfum vaxandi atvinnulífs og íbúafjölgunar til næstu framtíðar

 

Í forgrunni hjá Í-listanum

 • Nýbygging í Neðstakaupstað sem hýsir Hornstrandastofu og færa Byggðasafn Vestfjarða til nútímans. Tekjur safnsins af ferðamönnum munu vaxa verulega vegna þessarar byggingar og möguleikar ferðaþjónustu aukast.
 • Unnið verður að því að koma fráveitumálum sveitarfélagsins í gott horf og er það mikilvægur þáttur í að undirbúa fjölgun íbúa og fyrirtækja.

 

Fiskeldi

Frá árinu 2016 hefur Í-listinn haft forgöngu um að undirbúa Ísafjarðarhöfn undir fiskeldi framtíðarinnar, með því að vinna að framgangi Sundabakka á samgönguáætlun og með skipulagi iðnaðarlóða í samstarfi við eldisfyrirtæki og tengda aðila.

Fiskeldi í Ísafjarðarbæ er orðið að veruleika. Nú þegar liggur fyrir að 10.000 tonna eldi verður í Dýrafirði auk þess sem umtalsvert aukning á eldi er fyrirhugað í Arnarfirði og eldi á regnbogasilungi í Skutulsfirði.

Fiskeldi mun halda áfram að aukast á svæðinu. Fiskeldinu fylgir nú þegar fjöldi starfa og enn fleiri störf í náinni framtíð, bærinn þarf að undirbúa sig fyrir það.

Í-listinn mun áfram berjast fyrir því að stjórnvöld og stofnanir ríkisins sýni sanngirni og raunsæi og opni Ísafjarðardjúp fyrir laxeldi á næstu misserum.

Í-listinn mun áfram berjast fyrir rétti sveitarfélagsins til að njóta afgjalda af þeirri auðlind sem felst í fjörðum okkar og strandsjó.

Umhverfi og náttúra

Viðhaldi var lengi vanrækt. Þrátt fyrir að Í-listinn hafi tekið til hendinni er margt óunnið enn. Viðhaldsleysi grefur undan framtíðinni. Í-listinn mun halda áfram að greiða „viðhaldsskuld“ fyrri ára og gera Ísafjarðarbæ að fyrirmyndarbæ.

Í-listinn hefur lagt áherslu á að fegra umhverfið í sveitarfélaginu og mun halda því áfram. Götur, gangstéttir, græn svæði og aðrir innviðir þarfnast frekari endurnýjunar og viðhalds. Við viljum að íbúar séu stoltir og gleðjist yfir ásýnd og umhverfi sveitarfélagsins.

Í-listinn stefnir að því að taka upp gagnvirkt kort fyrir Ísafjarðarbæ þar sem íbúar geta fylgst með hinum ýmsu þáttum í þjónustu sveitarfélagsins í umhverfinu. Á slíku korti ætti að vera hægt að nálgast upplýsingar um fyrirhugað viðhald og framkvæmdir, snjómokstursáætlun, framvindu snjómoksturs og margt fleira. Við setjum umhverfismál í öndvegi og viljum minnka vistspor okkar og draga úr sóun. Við munum virkja allar stofnanir Ísafjarðarbæjar í Grænum skrefum til að draga úr sinni plastnotkun og hvetja fyrirtæki og einstaklinga í sveitarfélaginu til hins sama.

 

Þjónusta við bæjarbúa

Umhverfi íbúanna

 • Við ætlum að halda áfram að fjölga göngustígum í öllum byggðarkjörnum í sveitarfélaginu og gera Ísafjarðarbæ að útivistarparadís fyrir alla.
 • Við munum tengja saman stígakerfi og útivistarsvæði með fjölbreyttum notkunar möguleikum t.d fyrir hjól, hlaup, erfiða göngu, létta göngu og malbika leiðir.
 • Aukum möguleika íbúa til að fara sinna ferða gangandi og hjólandi vetur sem sumar með snjómokstri og hálkuvörnum.
 • Bætt skipulag snjómoksturs og aukin upplýsingagjöf þar að lútandi er stefna Í-listans.
 • Við ætlum að bæta aðbúnað og aðstöðu á grænum almenningssvæðum í öllum byggðakjörnum í samráði við íbúa. Sérstök áhersla verður lögð á snjóflóðavarnargarðinn á Flateyri.
 • Við bjóðum áfram íbúum að taka græn svæði í fóstur.
 • Ofanflóðavarnir. Áhersla lögð á að hefja snjóflóðavarnir í Hnífsdal
 • Uppbygging og endurbætur gatna og gangstétta – eins og verið hefur. Hellulögn verður viðhöfð eftir því sem kostur er.
 • Framhald endurbóta á umhverfi grunnskóla, sundlaugar, tjarnar og kirkju á Suðureyri.

 

Umhverfi náttúrunnar

 • Höldum áfram að auka möguleika íbúa til að fara sinna ferða gangandi og hjólandi sumar sem vetur – með snjómokstri og hálkuvörnum
 • Við ætlum að leita eftir áliti íbúa við gerð viðhalds- og fjárfestingaáætlana í virku samráði við hverfisráðin
 • Við ætlum að ljúka gerð áætlunar um úrbætur á fráveitumálum og hefja framkvæmdir í framhaldi af því. Þannig stöndumst við kröfur Evrópusambandsins um fráveitumál.
 • Við leggjum áherslu á aukna upplýsingagjöf til íbúa og skólabarna um mikilvægi sorpflokkunar og hvernig flokkun skal háttað.
 • Við munum styðja við verkefni sem stuðla að endurvinnslu og minnka sóun.
 • Við ætlum að styrkja umgjörð umhverfisviku Ísafjarðarbæjar á markvissan hátt í öllum byggðarkjörnum með samráði við hverfisráðin.
 • Í tengslum við umhverfisviku viljum við leggja áhersla á að fræða íbúa um umhverfismál, og þematengd verkefni.

 

Skipulagsmál

Skipulag á að sjá fyrir þróun samfélagsins, og örva bæði samfélag og atvinnulíf til dáða.

Skipulag þarf að byggja á framtíðarsýn sem hefur trú á framtíð sveitarfélagsins og byggðum þess. Leggja þarf ríka áherslu á að sjá fyrir tækifæri og möguleika við skipulagsgerð.

Aðalskipulag sveitarfélagsins verður tekið upp á árinu 2018 og vinna við nýtt skipulag hefst. Þar munum við skipuleggja sókn til framtíðar en ekki vörn.

Skjót viðbrögð og framsýni, líkt og Í-listinn hefur t.d. sýnt á Sundabakka, er það sem þarf þegar uppbygging atvinnulífs er að taka hröðum stakkaskiptum.

Með Dýrafjarðargöngum og nýjum vegi um Dynjandisheiði verður Dýrafjörður miðpunktur Vestfjarða. Undirbúa þarf jarðveginn fyrir frekari uppbyggingu í Dýrafirði með djörfu, framsýnu  og sveigjanlegu aðalskipulagi.

Stjórnsýsla

Í-listinn mun nýta þá vinnu sem nú fer fram vegna nýrra laga um persónuvernd til að gera úrbætur á öllum stjórnsýsluferlum og vinna að því að stjórnsýslan geti sem mest átt sér stað með stafrænum hætti.

Í-listinn ætlar að vinna að því að Ísafjarðarbær verði í fremstu röð sveitarfélaga í að nýta hina stafrænu tækni, sem oft er kölluð fjórða iðnbyltingin, og bjóða íbúum upp stafræn samskipti á flestum eða öllum sviðum stjórnsýslunnar.

Í-listinn mun vinna að því að erindi hverfisráða – og allra bæjarbúa – verði unnin stafrænt þannig að íbúar geti auðveldlega fylgst með framgangi þeirra.

Fjármál

Í-listinn mun áfram stýra fjármálum Ísafjarðarbæjar með ábyrgum hætti. Í því felst að skuldaviðmið sveitarfélagsins haldi áfram að lækka. Engu að síður verður haldið áfram uppbyggingu í samfélaginu og varið til þess nauðsynlegum fjármunum. Sveitarfélag sem er í vexti og hefur trú á eigin framtíð verður að fjárfesta í innviðum og búa í haginn fyrir framtíðina.

Vinna við fjárhagsáætlanagerð hefur tekið stórstígum framförum á kjörtímabilinu með bættu skipulagi og aukinni þátttöku starfsfólks. Þetta hefur skilað sér í traustari fjárhagsáætlunum og auknu svigrúmi til að mæta áföllum. Haldið verður áfram á þessari braut.

Bókhald sveitarfélagsins var opnað fyrir almenningi á síðasta ári. Leitað verður leiða til að kalla eftir ábendingum frá íbúum um mögulegar úrbætur á rekstri Ísafjarðarbæjar.

Mannauður – starfsfólk

Verkefni sveitarfélagsins verða aldrei unnin nema af starfsfólki þess. Allt að 400 manns vinna hjá sveitarfélaginu, ýmist í fullum störfum eða að hluta. Rekstur sveitarfélagsins verður ekki árangursríkur nema að lögð sé rækt við starfsfólkið.

Raunverulegur árangur í rekstri sveitarfélagsins næst með því að gefa starfsfólki kost á að finna betri leiðir til árangurs, ýmist með því að einfalda verkþætti eða með því að leggja til hliðar verkefni sem ekki er lengur þörf á.

Í-listinn stefnir að tilraunum með styttri vinnuviku þar sem kostur er, en slíkar tilraunir hafa gefist vel annars staðar og skilað auknum afköstum og árangri.

 

Upcoming events