Arna Lára Jónsdóttir skipar 1. sæti á lista Í-listans fyrir komandi sveitastjórnarkosningar. Hver er Arna?

Ég er 42 ára ísfirðingur og bý með Inga Birni Guðnasyni. Börnin eru þrjú, Hafdís næstum 20 ára, Helena 15 ára og Dagur bráðum 5 ára. Ég starfa sem verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands þegar ég er ekki að sinna bæjarmálunum. Ég hef verið bæjarfulltrúi frá árinu 2006 og formaður bæjarráðs frá 2014. Þegar ég er ekki í vinnunni eða hugsa um hag bæjarbúa, þá elti ég börnin í körfunni eða fer út að leika við Gullrillu vinkonur mínar.

Hvaða málefni sveitarfélagsins vekja mestan áhuga þinn?
Ég brenn fyrir að sjá samfélagið byggjast upp og vaxa. Við erum með stór verkefni í farvatninu sem ég vil fá að fylgja eftir. Alltof lengi höfum við verið að bregðast við fólksfækkun og fækkun starfa en nú horfir ný framtíð við, full af bjartsýni og þrótti.

Fallegasti staður á Vestfjörðum fyrir utan þinn heimabæ?
Fallegasti á staður á Vestfjörðum, sem er pínu leynistaður, er Höfn í Dýrafirði. Ég fell alltaf í stafi þegar ég fer þar framhjá og þar skammt frá er fjallið Skeggi í Lokinhamradal sem er alveg einstakt.

Ég vildi að ríkisvaldið hefði betri skilning á málefnum okkar Vestfirðinga. Innviðirnar verða að vera öflugir svo samfélagið geti vaxið og blómstrað. Við erum langt á eftir öðrum landshlutum þegar kemur að raforkuöryggi, vegabótum og ljósleiðaravæðingu. Svo þarf ríkið að lengja fæðingarorlofið – þá verð ég þokkalega sátt.

Varstu þægt barn?
Ég var rosalega þægt og sjálfstætt barn alveg þar til ég varð 14 ára – þá komu nokkur erfið ár. 😊 Síðan þá hef ég verið fyrirmyndardóttir að eigin sögn.

Fótbolti eða körfubolti?
Ég vel alltaf körfubolta fram yfir fótbolta. Það er skorað miklu meira í körfunni og hraðinn þar hentar mér betur.

Upcoming events